154. löggjafarþing — 104. fundur,  30. apr. 2024.

Staðan og aðgerðir í loftslagsmálum.

[14:54]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir umræðuna og málshefjanda, þetta var nokkuð út og suður og ég ætla að reyna leiðrétta svona helstu þætti. Fyrst er það hárrétt hjá hv. þm. Ingibjörgu Isaksen að mikill árangur hefur náðst og kyrrstaðan hefur verið rofin. Hún spyr um leiðir til þess að fara úr olíunni, sem eru öfug orkuskipti, yfir í græna orku. Það hefur náttúrlega lengi legið fyrir hver áætlunin er og við höfum unnið markvisst að því og sem betur fer náð árangri en núna er verkefni vorsins að klára sameiningarfrumvörpin og sömuleiðis að halda áfram með einföldun og það er það sama og allar þær þjóðir sem við berum okkur saman við eru að gera. Það var kostulegt að hlusta á Samfylkinguna, ég var nú með formanni Samfylkingarinnar í Kastljósi í gær og það er örugglega fróðlegt að hlusta á þingflokksfundi þar því að þar eru menn algjörlega út og suður. En bara til upplýsingar, þegar menn tala um að það sé hræðilegt að stórnotendur séu að fá orku: Hvað eru stórnotendur? Það er engin stóriðja á leiðinni. Það er ekkert slíkt. Það eru mörg hundruð megavött, 10 MW og meira eru stórnotendur, t.d. eins og í vinnslu smáþörunga, spírulína, í landeldi og annað slíkt sem ég hélt að menn væru nú frekar fylgjandi. En kannski vilja menn hafa þar olíu, ég átta mig ekki á því, kannski er Samfylkingin þar.

Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var á mjög áhugaverðum stað, sérstaklega í ljósi þess að þetta er nú sá forsætisráðherra sem hefur talað háværast um mikilvægi þess að Ísland verði í allra fremstu röð í loftslagsmálum. Nóg um það. En ég kannast ekki við að það sé verið að flytja fyrirtæki úr landi. Hann talaði hér um að menn tapi á því að fara í grænu orkuskiptin. Ég bara spyr: Töpuðum við á því að fara í hitaveituvæðinguna? Er einhver sem heldur því fram? Það er bara langur vegur frá. Við erum að taka út olíu og jarðefnaeldsneyti og við erum að setja íslenska endurnýjanlega orku í staðinn.

Hér hefur verið aðeins minnst á flutningsmannvirki. Það er verið að fara í stærstu framkvæmdir Íslandssögunnar þegar kemur að flutningsmannvirkjum, 88 milljarðar sem Landsnet er að fara í og hefur aldrei farið í neitt stærra.

Það er gott að taka þessa umræðu því að ég held að með hverri umræðu séu kannski meiri líkur á því að staðreyndirnar komi fram. (Forseti hringir.) En auðvitað verða menn, virðulegi forseti, að kynna sér málin. Við erum að eiga við það að við erum með viðmiðunarárið 2005. Þá voru Íslendingar 300.000, ekki 400.000, og þá voru 300.000 ferðamenn, ekki 2,3 milljónir. (Forseti hringir.) En við höfum t.d. tekið niður útblástur í sjávarútvegi um 35% og þrátt fyrir að bílum hafi fjölgað út af bílaleigubílum um 55% þá hefur aukningin einungis verið um 20%. Þannig að þetta er allt saman á réttri leið en við þurfum að halda okkur vel við efnið. (Forseti hringir.) Ástæðan fyrir því að aðgerðaáætlunin er ekki komin er að við erum að vinna vinnu sem flestar þjóðir sem við berum okkur saman við voru búnar að þegar við komum að þessu. En hv. þingmenn þurfa ekki að hafa neinar áhyggjur. (Forseti hringir.) Aðgerðaáætlunin kemur og það verður gaman að taka umræðu um hana.